149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum um nokkurn tíma kallað eftir ákveðnum skýringum úr þessum ræðustól, sérstaklega þingmenn Miðflokksins. Telur hv. þingmaður að á einhverjum tímapunkti hafi fylgjendur þess að innleiða þriðja orkupakkann í lög á Íslandi svarað með einhverjum hætti því sem þingmaður veltir upp varðandi fjórða orkupakkann og það sem fram undan er?

Í ljósi sögunnar er, held ég, nauðsynlegt að velta fyrir sér hvað fleira sé í pípunum þegar kemur að orkumarkaðnum og ekki bara honum heldur ýmsu öðru sem við erum að innleiða. Ástæðan fyrir því að ég segi þetta er að innleiðing orkupakka tvö eða annarrar tilskipunar um orkumál gerði að verkum að Evrópusambandið sá sér ekki fært að veita okkur undanþágu, alla vega ekki á þeim tíma, frá orkupakka þrjú. Þegar við vorum að innleiða orkupakka tvö eða aðra orkutilskipunina hefðum við þurft að vita meira um hvað var í orkupakka þrjú og hugsanlega velta fyrir okkur hvaða afleiðingar það hefði ef við tækjum hann, og svo núna fjórða þegar við erum komin að því að innleiða orkupakka fjögur.

Er ekki sanngjarnt, ef hægt er að nota það orð hér í þessum sal, að ætlast til þess að fylgjendur leggi spilin á borðið um hvað er fram undan í frekari löggjöf af hálfu Evrópusambandsins, í það minnsta þeirri löggjöf sem liggur fyrir? Nú höfum við séð að Norðmenn virðast hafa fengið kynningu á orkupakka fjögur sem er meiri en sú kynning sem alþingismenn hafa fengið hér á Íslandi. Nú er spurning hvort ekki sé rétt, hreinlega, að fresta þessari innleiðingu og velta fyrir sér hvað komi í næsta pakka og geta þá tekið ákvörðun sem byggist á heildstæðri yfirsýn yfir það sem er á borðinu og það sem er væntanlegt þannig að menn geti metið málið í heild.