149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Allt frá árinu 2016 hefur Evrópusambandið unnið að þessum fjórða orkupakka og farið í gegnum ákveðið ferli með hann innan sinna raða. Það kemur fram í svari frá utanríkisráðuneytinu, við spurningu sem ég lagði fram, að búið er að afgreiða, held ég, fjórar af átta gerðum sem eru í þessum fjórða orkupakka. Hinar fjórar, ef ég man þetta rétt, eða restin, eru í einhvers konar ferli innan Evrópusambandsins.

Líkt og Norðmenn virðast hafa höfum við væntanlega aðgang að þessum gerðum öllum. Er þá ekki rétt að menn staldri við og kynni fyrir þingmönnum hvað er þarna á ferðinni, hvort sem það mun taka einhverjum verulegum breytingum eða ekki? Ég kannast ekki við að í svörunum frá utanríkisráðuneytinu hafi verið minnst sérstaklega á að þessar gerðir hafi tekið einhverjum breytingum. En það er kannski eðlilegt að það komi ekki fram heldur.

Það sem ég er að segja er að þessar breytingar sem byrjað var á 2016 eru á fullri ferð inni í kerfinu. Norðmenn virðast vera búnir að fá einhvers konar kynningu á þessu. Það kemur fram hjá utanríkisráðuneytinu, í svari til mín, að búið er að skipa einhvern samráðshóp eða starfshóp til að fara yfir þennan fjórða orkupakka. Ég held að það væri rétt að fá kynningu, áður en lengra er haldið, á því hvað er í pípunum, hvað þessar gerðir sem búið er að samþykkja innihalda og hvað stendur í gerðum sem eru í ferli innan Evrópusambandsins, eða hverju þær muni breyta.

Fyrst við vitum að þetta er „tilbúið“ eða er á góðri leið með að verða allt samþykkt er eðlilegt að við óskum eftir því að fá kynningu á þessu samhliða því sem verið er að afgreiða þennan þriðja orkupakka.