149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:51]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur fyrir andsvarið. Ég held að það sé algjört lykilatriði að við skoðum svolítið betur á hvaða vegferð við erum og hvað er fram undan. Það er mín sannfæring að eftir því sem maður kynnir sér málið betur komist maður að þeirri niðurstöðu að þetta henti okkur engan veginn. Þessi meginlandshugmyndafræði, sem getur vel átt við í Evrópu, hentar okkur Íslendingum ekki.

Ég undrast alltaf meir og meir af hverju við erum með þetta mál á dagskrá og eyðum öllum þessum tíma í það þegar það væri leikur einn að fresta því og koma með gögn fyrir þingmenn til að kynna sér, rýna betur í lagatexta, kanna betur hvaða leiðir væri hentugt fyrir okkur að fara. Það væri þá sáttamiðlun í þessu máli. Við Miðflokksmenn höfum lagt það til að vísa málinu aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar og höfum stutt það góðum rökum. En við gætum sætt okkur við að málinu yrði frestað og lögð yrðu á borðið frekari gögn sem við gætum kynnt okkur og að sjálfsögðu aðrir þingmenn líka, sem yrði þá til þess að við gætum tekið umræðu í breiðari hópi en hér er um þessi mikilsverðu mál sem varða auðlindir okkar allra.