149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, matið er rétt. Hv. þingmaður sagði í fyrra andsvari að það þyrfti að upplýsa hvað felst í þessum fjórða orkupakka. Það er nákvæmlega það sem er eðlilegt að gera vegna þess að það er pínuóhugnanlegt í rauninni, ég ætla leyfa mér að nota það orð, að þingmenn ætli sér hugsanlega að samþykkja innleiðingu á orkutilskipun frá Evrópusambandinu vitandi það að næstu tilskipanir eru tilbúnar, vitandi það að fyrir liggur hvert næsta skref verður, að menn ætli sér að samþykkja það án þess að vita hvað felst í framhaldinu. Mér finnst það býsna óhugnanlegt vegna þess að þá eru menn einhvern veginn að loka á þá staðreynd að upplýsingarnar eru til. Við þurfum hins vegar að fá þær upplýsingar. Við þurfum að geta rýnt þær, við þurfum að fá þær gagnrýndar þannig að menn geti velt fyrir sér hvað þetta þýði nákvæmlega. Ég velti líka fyrir mér hvort einhver von sé til þess að einhver íslenskur fjölmiðill hafi getu til að kynna sér þetta og kafa ofan í þessi mál.