149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að nærtækasta dæmið sé þetta með ófrosna kjötið, að þar hafi menn haldið að þeir hefðu sterkara land undir fótum en þeir höfðu þegar á reyndi. Það sem ég hef áhyggjur af er: Mun fjórði orkupakkinn leiða af sér t.d. það að krafa verði um frekari markaðsvæðingu raforkunnar? Verður gerð krafa um að verðlagningin verði ákveðin með einhverjum öðrum hætti en í dag? Er framhald á því hverjir sýsla með leyfisveitingar og þess háttar?

Ef það er rétt — og nú ætla ég að leyfa mér að segja ef — ef það er rétt að í þessum fjórða orkupakka sé kveðið á um að inn- og útflutningur raforku megi ekki vera takmarkaður af innlendum þáttum, þá þurfum við að fá það á hreint, virðulegi forseti, hvaða innlendu þættir það eru? Eru það innlend lög og reglur? (Forseti hringir.) Er það flutningskerfið? Eða hvað er það sem þarna er, því að það hefur komið fram að þetta sé í þeim pakka?