149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að biðjast afsökunar á því að hafa ekki nefnt Bændablaðið áðan. Það er alveg hárrétt að Bændablaðið fjallaði um þessa norsku skýrslu og gerði það ágætlega. Það birti, ef ég man rétt, hlekk inn á hana, eða alla vega fann ég þann hlekk einhvers staðar. Það er rétt að það er alla vega einn fjölmiðill sem hefur lagt í að kynna sér þennan fjórða orkupakka. Ég held að við hljótum að biðla til þingmanna að staldra við og afla sér upplýsinga um hvað er í þessum þúsund blaðsíðum sem gæti haft áhrif á Ísland.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að í þessari skýrslu kemur fram — ég man reyndar ekki vefsíðuna en ég hef séð þetta annars staðar, þar sem talað er um að í orkupakka fjögur sé hætt að tala um ríki heldur svæði. Það er búin til, ef ég man rétt, einhvers konar stofnun, svæðisstofnun, sem sér um umsýslu og þess háttar á því svæði öllu saman. Þróunin í þessum málum heldur greinilega áfram. Spurningin er bara: Viljum við færa þá stöðu — ég veit ekki hvort það er rétt, virðulegur forseti, að nota orðið vígstaða — eða þann stað sem við erum á í dag frá því að geta sent málið til sameiginlegu EES-nefndarinnar eitthvað fram í tímann þar sem við vitum í raun ekki nógu vel hvað það er sem er í boði. Þá verður væntanlega of seint að bregðast við þessu vegna þess að rökin verða þau sömu og við orkupakka tvö eða raforkutilskipunina, að við séum búin að innleiða og þar með viðurkenna að þetta ferli eigi sér stað.

Ég held að það sé mjög mikilvægt, hv. þingmaður, að staldra við og kanna betur hvað felst í þessum svæðisskrifstofum eða stofnunum sem á að setja upp og hvort slíkt hefði áhrif á Ísland. Það er eitt margra atriða sem þyrfti að kanna.