149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:59]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað fá tækifæri til að eiga orðastað í þessum umræðum, meira en raun ber vitni, við stuðningsmenn þessa máls. Í Morgunblaðinu í dag er grein eftir einn þeirra stuðningsmanna, hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur. Ég tel þessa grein ritaða af heilindum, vandvirkni og samviskusemi og ætla að mér leyfist að fjalla nokkuð um efni hennar.

Í upphafi er rakið starf utanríkismálanefndar í þessu máli. Þar segir, með leyfi forseta:

„Málsmeðferð þriðja orkupakkans á sér engin fordæmi meðal annarra EES-mála hérlendis hvorki sú mikla vinna sem átti sér stað innan ráðuneytanna né sú umfangsmikla vinna og umræða sem átt hefur sér stað innan þings. Öllum steinum hefur verið velt við við skoðun málsins …“

Ég vil leyfa mér að segja að hér er kannski fullmikið sagt í ljósi þess að ákaft hefur verið kallað eftir því, m.a. af þeim sem hér stendur, að lögð verði fram ítarlegri gögn í þessu máli en fyrir liggja, þar á meðal lögfræðilegt álit um þá leið sem varð ofan á af hálfu ríkisstjórnarinnar, þ.e. að innleiða orkupakkann með því sem kallað er lagalegur fyrirvari. Reyndar stendur yfir leit að þeim lagalega fyrirvara, eftir því sem best verður séð, og verður fróðlegt að sjá hann þegar hann loks birtist.

Þá segir um innleiðingu orkupakkans í íslenskan landsrétt, eins og lagt er upp með, með leyfi forseta:

„Innleiðing þriðja orkupakkans í íslenskan landsrétt, á þann hátt sem lagt er upp með, er ekki aðeins hættulaus, heldur eru reglur hans til hagsbóta fyrir Íslendinga vegna aukinnar neytendaverndar og reglna sem stuðla að aukinni samkeppni og jafnræði milli aðila, sem ætti almennt að stuðla að lægra verði.“

Hér er nú ekki hægt annað en að gera nokkrar athugasemdir. Í fyrsta lagi er vísað til aukinnar neytendaverndar. Á nefndarfundi sem ég sat — ég reyndar man ekki hvort það var í hv. utanríkismálanefnd, þar sem ég sat nokkra fundi, eða í atvinnuveganefnd, þar sem ég á sæti — voru gestir sem þekkja til inntir eftir þessari neytendavernd. Þá kom það svar að það sem helst vantaði upp á aukna neytendavernd væri aukinn málshraði kærumála á vettvangi raforkumála. Það er kannski eitthvað sem við gætum sem best leyst úr sjálf án þess að innleiða heilan orkupakka og umdeildan mjög.

Fullyrðingarnar um aukna samkeppni og jafnræði milli aðila eru ósköp einfaldlega ósannaðar. Ég geri mér grein fyrir því að hér er um að ræða grein í dagblaði en þetta þykja mér nokkuð sverar fullyrðingar. Líka ályktunin þegar segir að þetta ætti almennt að stuðla að lægra verði. Í þessari umræðu hefur hv. þm. Birgir Þórarinsson lagt fram dæmi af eigin reynslu úr sinni heimabyggð suður með sjó, á Vatnsleysuströnd, sem sýna fram á að hann sjálfur mátti sæta mikilli hækkun á raforkuverði.

Sömuleiðis er á það að líta að við erum með lægra raforkuverð hér á Íslandi en almennt tíðkast í Evrópu. Með þeirri samræmingu og einsleitni sem samningurinn stefnir að er ekki við öðru að búast, a.m.k. óvarlegt að gera ráð fyrir öðru, en að raforkuverð hér muni hækka til samræmis við það sem gerist og gengur. Þar með myndu leggjast auknar byrðar á íslensk heimili og íslenska atvinnuvegi sem reiða sig á orku á hagkvæmu verði en yrðu fyrir áfalli vegna þessa.

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Í einni álitsgerðinni, þeirra Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts, var niðurstaðan af öðrum toga, þ.e. að innleiðing þriðja orkupakkans í landsrétt kynni að brjóta í bága við stjórnarskrá.“

Hér er þetta mjög varlega orðað, verður að segjast. Þeir segja a.m.k. á tveimur stöðum að „verulegur vafi“ leiki á því hvort ákvæði í þessum gerðum sem er að finna í orkupakkanum, sérstaklega í reglugerð nr. 713, standist ákvæði stjórnarskrárinnar.

Það er fleira í þessari grein sem fullkomið tilefni hefði verið til að fjalla um en ég fæ kannski tækifæri til þess síðar.