149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og vona svo sannarlega að hann haldi áfram að kryfja þessa grein hv. þm Bryndísar Haraldsdóttur sem birt var í Morgunblaðinu.

Það var svolítið sérstakt að heyra þingmanninn lesa upp úr þeirri grein — ég verð að viðurkenna að ég var ekki búinn að lesa hana sjálfur — í ljósi þess að fyrir nokkrum dögum fjallaði blaðamaður Morgunblaðsins, Gunnlaugur að nafni, held ég, um tilskipanir Evrópusambandsins sem innleiddar hafa verið á Íslandi sem gera kröfu um það að útboð fari fram á nýtingarrétti og þess háttar. Það er svolítið sérstakt að nokkrum dögum síðar skrifar þingmaður Sjálfstæðisflokksins grein í blað og blessar það að Evrópusambandið skuli vera að ná enn meiri völdum á íslenskum raforkumarkaði en það hefur þegar í dag.

Ég hef í máli mínu ekki fjallað mikið um stjórnarskrána og þann verulega vafa sem hv. þingmaður og sérfræðingarnir bentu á. En hv. þingmaður hefur gert það töluvert og ég ætla að biðja hann að svara mér hvort hægt sé að misskilja þau varnaðarorð sérfræðinganna þegar kemur að stjórnarskránni. Er eitthvað hægt að rangtúlka þessi varnaðarorð? Ég hef áhyggjur af því að það sé það sem hefur svolítið verið gert hér.

Hv. þingmaður vitnaði í að þingmaðurinn sem skrifaði greinina hafi sagt að öllum steinum hafi verið velt við. Ég ætla að leyfa mér að draga það mjög í efa að öllum steinum hafi verið velt við í ljósi þess — og ég hef nú hamrað á því hér í kvöld — að hinn svokallaði fjórði orkupakki er tilbúinn. Hann liggur fyrir. Það er ljóst hvað í honum er. Ef það er þannig að þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa fengið einhverja sérstaka kynningu á fjórða orkupakkanum, að þeim steinum hafi verið velt við — vegna þess að hann er kannski ekki sjálfstætt en hann er beint framhald af þriðja orkupakkanum — þá sitjum við greinilega ekki við sama borð. Ég vil því inna hv. þingmann eftir því hvort hann sé sammála þessu, að öllum steinum hafi verið velt við.