149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður kom inn á þau varnaðarorð sem sérfræðingarnir, tvímenningarnir svokölluðu, hafa haft uppi, m.a. varðandi skipulag, ráðstöfun og nýtingu auðlindanna. Það sem ég hef náð að kynna mér varðandi orkupakka fjögur fjallar einmitt áfram um skipulag, ráðstöfun og nýtingu auðlinda. Því er eðlilegt, finnst mér, í það minnsta að álykta sem svo að þessi fjórði orkupakki sé beint framhald af þriðja orkupakkanum líkt og hann var beint framhald af annarri orkutilskipun sem innleidd var hér. Er þá ekki rétt, hv. þingmaður, að staldra við og óska þess að við fáum tækifæri til að kynna okkur innihald þessa fjórða orkupakka, hvaða breytingar hann muni leiða fyrir Ísland? Kann að vera að það sé einfaldlega best að fresta þessu máli til haustsins til að unnt sé að setjast almennilega yfir hvað kemur í næsta pakka þannig (Forseti hringir.) að bæði stjórnarþingmenn og stjórnarandstöðuþingmenn séu betur upplýstir.