149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:11]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Í ljósi þess að hv. þingmaður nefndi, hvernig á að orða það, áhugaverða grein, kannski svolítið lýsandi fyrir það hvernig stjórnarmeirihlutinn nálgast málið, grein eftir hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur í Morgunblaðinu í dag, og gat þess að hún væri þar að rekja, sem er rétt hjá hv. þingmanni, það sem að hennar mati væri góð málsmeðferð þessa máls og reynt var að halda því fram að vel hefði verið haldið á málinu og þess vegna ættu þingmenn væntanlega ekki að þurfa að setja út á það, þá getur maður ekki annað en spurt hv. þingmann: Er hægt að hans mati að leyfa sér að halda því fram að hér hafi verið viðhöfð góð málsmeðferð þegar við höfum ekki einu sinni fengið svar við þeirri einföldu grundvallarspurningu hvers vegna ríkisstjórnin sé ekki reiðubúin til að senda málið aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar í samræmi við ákvæði samningsins? Það er ekki verið að biðja um svör við því hvers vegna menn geri ekki eitthvað sem ekki eru heimildir fyrir. Nei. Það er einfaldlega verið að spyrja í ljósi þess að ríkisstjórnin telur að eitthvað sé að marka þessa svokölluðu lagalegu fyrirvara, sem týndust nú reyndar á meðan á þessari umræðu stóð. En í ljósi þess að ríkisstjórnin heldur því engu að síður fram að þetta muni ekki hafa nein áhrif hér á landi sem heitið getur, hvers vegna geta menn ekki einu sinni svarað spurningunni: Af hverju ekki þá að senda þetta aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar? En þegar menn geta ekki svarað svo einfaldri grundvallarspurningu, geta menn þá á sama tíma leyft sér að halda því fram að málsmeðferðin hafi verið í lagi?