149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:13]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það má kannski jafnvel auka í miðað við það sem hann lagði upp vegna þess að það liggur fyrir að orkupakkinn geymir gerðir sem lúta að jarðgasi og það er ekki farið fram á það við okkur Íslendinga að við innleiðum þær gerðir, vegna þess að jarðgas á ekki við hér. Nú stendur þannig á að við erum ótengd við raforkukerfi Evrópu og maður spyr sig í ljósi þess að þetta er málefnaleg ástæða: Af hverju er verið að fara fram á það við okkur að við tengjumst þessari samevrópsku eftirlitsstofnun, ACER, sem svo er kölluð?

Það er sömuleiðis ástæða til að spyrja í framhaldi af því sem hv. þingmaður lagði hér upp: Af hverju ekki? Í ljósi þess að háttsettur orkukommissar eða embættismaður sem fer með orkumál í Evrópusambandinu hefur staðið að yfirlýsingu ásamt með hæstv. utanríkisráðherra og lýst ákveðnum skilningi. Og í ljósi þess að fyrir liggur sameiginleg yfirlýsing EFTA-ríkjanna sem sett var fram á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar, í ljósi þessa skilnings, í ljósi þessarar samstöðu hefði maður fyrir fram álitið að það mætti gera ráð fyrir að skilningur væri á sérstöðu Íslendinga sem er af landfræðilegum toga fyrst og fremst og í ljósi þess mætti búast við því að málaleitan sem fæli í sér beiðni um undanþágu frá þessum gerðum, sérstaklega 713 og öðru sem er að finna þarna, fengi jákvæðar og góðar undirtektir, enda er hér um að ræða samstarf á milli vinveittra ríkja á friðsamlegum grundvelli.