149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:16]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Eftir því sem skilningur hefur vaxið á þessu máli, eftir því sem umræðunni hefur fleygt fram og eftir því sem upplýsingar hafa borist, reyndar hafa þær verið ákaflega takmarkaðar og af skornum skammti, þá er ekki annað að sjá en að menn geri sér almennt grein fyrir því, a.m.k. stjórnarmegin í tilverunni, að þessar gerðir, þar á meðal 713 reglugerðin og 714 og tiltekið ákvæði í tilskipun 72 frá 2009, sem vakið hefur verið sérstaklega máls á, að menn verða að horfast í augu við að þetta verður innleitt í íslenskan landsrétt fyrirvaralaust. Fyrirvarinn, lagalegi fyrirvarinn, honum sýnist ætlað að koma til móts við þau sjónarmið sem er að finna í fyrrgreindri álitsgerð um þennan árekstur við stjórnarskrána og að það sé með öllu óheimilt að samþykkja hér einhverjar gerðir í ljósi þess að svo standi á í svipinn að þær eigi ekki við vegna þess að hér sé ekki sæstrengur.