149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:18]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna. Ég verð að viðurkenna að ég er nokkuð föst í þessum áhrifum af orkupakka fjögur og þeirri grein sem birtist í Bændablaðinu. Mér skilst að búið sé að kynna orkupakka fjögur í Noregi og m.a. hafi komið fram að ACER fái þar meiri yfirráð en áður. Þau áhrif sem eru hvað mest í Noregi eru að orkuverð muni hækka. Í skýrslu sem unnin var segir að orkuverð muni hækka í Noregi, muni stórhækka, og fyrirtæki þar í landi muni þá missa það samkeppnisforskot sem þau höfðu. Fólk er farið að tala um að það séu tugþúsundir sem muni missa vinnuna. Ef maður hugsar nú um Ísland, og við viljum gjarnan hafa atvinnu um allt land, fer ég jafnvel að hugsa um virkjanir, t.d. á Austurlandi, hvort hv. þingmaður hafi gert sér einhverja grein fyrir eða myndað sér skoðun á því hvað muni gerast þegar við erum komin algjörlega í fjórða orkupakka hér á landi.