149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Óvissan um þriðja orkupakkann hefur kannski aukist eftir því sem líður á umræðuna vegna þeirrar vitneskju sem við fáum jafnt og þétt um orkupakka fjögur, þ.e. að sá pakki sem tekur við af þeim sem við fjöllum hér um muni leiða til frekari samþjöppunar, til frekari markaðsvæðingar orkunnar. Það er aftur mjög sérstakt að við séum hér með ríkisstjórn, undir forustu Vinstri grænna, sem beitir sér hart fyrir því að gera orku að enn meiri markaðsvöru en hún hefur verið, en í fjórða orkupakkanum er tekið skref lengra í þá átt.

Hv. þingmaður nefndi, ef ég heyrði rétt, skyldur ríkja til að hjálpa öðrum ríkjum til að laga kolefnisspor sitt. Ef fjórði orkupakkinn fjallar um aukna ábyrgð einstakra ríkja á orkumarkaðnum, að hjálpa öðrum að minnka kolefnisspor sitt, er ástæða til þess fyrir Íslendinga að setjast niður og kryfja þennan fjórða orkupakka, tengja hann við þriðja orkupakkann og segja: Heyrðu, hér er heildarlöggjöf, heildarbreyting á orkuumhverfinu, sem við álpuðumst til að taka upp með fyrstu raforkutilskipuninni og svo annarri, hér er heildaryfirlitið komið á pakka þrjú eða fjögur og það er þess eðlis að við þurfum að skoða málið betur.

Mér finnst ábyrgðarhluti að stíga það skref sem menn vilja gera hér án þess að hafa hugmynd um hvað það þýðir að stíga svo næsta skref með orkupakka fjögur. Þótt menn tali digurbarkalega úr þessum ræðustól og segi að þá getum við kannski beitt 102. gr. EES-samningsins eru engar líkur á að menn geri það, ekki þegar búið er að taka salamípylsuna hálfa.