149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:40]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, þetta er alveg sanngjörn gagnrýni hjá hv. þingmanni en ég myndi vilja bæta einu við þetta. Ég vil benda á að orkutilskipanirnar, sem hann kallaði réttilega svo, sú fyrsta og önnur, voru einmitt tilskipanir. En þriðji orkupakkinn snýst um reglugerðir. Hver er munurinn á þessu? Jú, fyrsta og önnur tilskipunin voru í raun ekki kölluð orkupakkar, ekki fyrr en eftir á, ekki fyrr en sá þriðji kom, heldur voru þetta tiltölulega einfaldar tilskipanir í samanburði við reglugerðabunkann sem birtist okkur í þriðja orkupakkanum.

Reglugerðir gefa mun minna svigrúm til að hvert og eitt ríki geti lagað þær að sínu umhverfi og veita Evrópusambandinu þar af leiðandi þeim mun meira vald. Það að stjórnvöld, ríkisstjórnin, hafa notað innleiðingu fyrstu og annarrar orkutilskipunar, sem síðar fengu nöfnin orkupakki eitt og tvö, til að rökstyðja innleiðingu þriðja orkupakkans, sem er uppfullur af reglugerðum, hlýtur að segja okkur sína sögu um það hvers sé að vænta, eins og hv. þingmaður kom inn á, þegar orkupakki fjögur, væntanlega uppfullur af reglugerðum, ekki bara tilskipunum, kemur til sögunnar.

Ef hægt er að nota tilskipanir úr fyrstu og annarri orkutilskipuninni til að réttlæta innleiðingu á heilum reglugerðapakka er þá sá pakki ekki einmitt til þess fallinn að leggja grunninn að reglugerðapakka með nafninu orkupakki fjögur? Þetta hlýtur að vera til þess fallið að veikja stöðu okkar þegar þar að kemur ætli menn að klára þennan þriðja orkupakka með þeim hætti sem lagt er upp með hér.