149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Fyrir nokkru sendi ég nokkrar spurningar til utanríkismálanefndar og óskaði eftir því að utanríkisráðuneytið myndi svara þeim. Þar á meðal voru spurningar um orkupakka fjögur og fimm.

Í svari varðandi orkupakka fjögur segir, með leyfi forseta:

„Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði í nóvember 2016 fram tillögur að nýrri löggjöf á sviði orkumála undir yfirskriftinni „hrein orka fyrir alla Evrópubúa“. … Þessi fjórði orkupakki felur í sér endurskoðun löggjafar á sviði orkumála og er samtals átta gerðir.“

Ég hef ekki tíma til að rekja þetta hér, mun gera það í ræðu síðar í kvöld. Jafnframt kemur fram í svarinu að sérstakur starfshópur hefur verið settur af stað vegna hagsmunagæslu og samráðs varðandi innleiðingu fjórða orkupakkans. Það er sem sagt greinilegt að byrjuð er töluverð rýni og vinna varðandi fjórða orkupakkann. Því er ekki úr vegi að spyrja hvort ekki sé einfaldlega best að gera hlé á þessari umræðu, hugsanlega fresta málinu til haustsins — í það minnsta að gera hlé þannig að hægt sé að kafa betur ofan í hvað er á ferðinni í fjórða orkupakkanum.