149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:43]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eftir þær upplýsingar sem við náðum að kría út fyrr í dag um fjórða orkupakkanum finnst mér blasa við að eina vitið sé að bíða með afgreiðslu þess þriðja fram á haustið, eins og mér skilst reyndar að hæstv. utanríkisráðherra hafi einhvern tímann boðað að að hann hygðist gera. Svo er allt í einu ákveðið að keyra þetta í gegn og helst að næturlagi. Hvers vegna skyldi það vera?

Getur verið að það sé einfaldlega vegna þess að einhverjir telji mikilvægt að festa okkur rækilega í gildrunni áður en farið verður að ræða fjórðu orkupakkann þannig að þar verði engrar undankomu auðið, að menn vilji ekki fá umræðu um fjórða pakkann áður en búið er að afgreiða þann þriðja af því að þá munum við átta okkur á því, þingmenn, að það er einmitt við þriðja orkupakkanum sem þarf að spyrna fótum og segja: Hingað og ekki lengra.