149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:47]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta blasa við. Svo skrifar einn hv. stjórnarþingmaður og einn af varaforsetum Alþingis grein í Morgunblaðið til að státa sig af því hvað málsmeðferðin hafi verið góð hér í þinginu. Loks núna erum við að reyna að kría út upplýsingar um hvað sé í þessum fjórða orkupakka sem augljóslega er í beinu samhengi við þann þriðja.

Við heyrum af því að fyrir allnokkru sé búið að kynna þennan fjórða orkupakka fyrir hinum og þessum hagsmunasamtökum úti í bæ og lesum á sama tíma að málsmeðferðin hafi öll verið til fyrirmyndar hér í þinginu. Þetta er bara enn ein áminningin um að það sem við horfum upp á er það sem sannfærðir Evrópusinnar kalla lofsverðar blekkingar, en er ekki lofsvert að mínu mati heldur svo sannarlega, eins og kemur betur og betur í ljós, fyrst og fremst blekkingar.

Svo rennur upp fyrir manni, þegar maður áttar sig á þeirri stöðu sem er uppi varðandi fjórða orkupakkann, og að hann sé kominn í kynningu hér — byrjaður að leka út, ef svo má segja — að það kunni eitthvað að hafa með það að gera að hæstv. utanríkisráðherra féll frá fyrri yfirlýsingu um að líkur væru á að þriðji orkupakkinn kæmi ekki inn fyrr en nú í haust. Ég fæ ekki annað út úr því en að menn vilji fyrir alla muni þvinga þann þriðja hér í gegn áður en menn lenda í umræðu um það hvað fjórði orkupakkinn inniheldur.