149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:57]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur fyrir prýðisgóða ræðu. Hv. þingmanni hefur orðið verulega tíðrætt um fjórða orkupakkann og hann er að einhverju leyti til í drögum, enda þótt þau séu e.t.v. ekki öll fullfrágengin, eins og það heitir. Fróðir menn segja að Evrópusambandið reki vefsíðu þar sem unnt er að öðlast aðgang að þeim skjölum.

Ég hefði kannski talið að af hálfu þeirra sem beita sér fyrir þessu máli hvað mest, náttúrlega ríkisstjórnarinnar, hefði verið rétt að standa þannig að málum að þingmönnum væru kynnt þessi drög, efni þessa fjórða orkupakka um leið og aflað væri sérfræðiálita um efni pakkans, þar á meðal af hálfu verkfræðinga og kunnáttumanna í raforkukerfum og að sama skapi að sjálfsögðu lögfræðinga, stjórnskipunarfræðinga og þeirra lögfræðinga sem sérhæfa sig í því sem kalla mætti raforkurétt.

Ég vil gjarnan kalla eftir áliti hv. þingmanns á þessum þætti í undirbúningsstarfi sem ætti að vera sjálfsagður og eðlilegur þáttur, að slík álit séu kölluð fram og að slík rýni og greining fari fram löngu áður en kemur að því að fjalla um málið á vettvangi Alþingis.