149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:59]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni kærlega fyrir andsvarið. Eins og ég skil þetta er fjórði orkupakkinn meira en drög. Ef ég tók rétt eftir er búið að kynna pakkann fyrir einhvers konar samtökum hér á landi og fleiri en einum, þannig að varla er aðeins verið að kynna drög þegar slík kynning á sér stað. Annað er hitt, alla vega ef ég vitna enn og aftur í Bændablaðið góða, að þá er talað svo fallega um að það miði allt að því að það verði frjáls samkeppni. Það er býsna fallegt orð. En ég velti fyrir mér á kostnað hvers? Þess vegna er það það eina sem ég hef í höndunum, þ.e. þessi grein úr Bændablaðinu undir heitinu Kolsvört skýrsla um orkupakka fjögur. Þar er verið að vitna í hvernig þessu hefur verið háttað í Noregi. Ef við eigum einhvers staðar að taka okkur eitthvað til fyrirmyndar þá er það hvernig hlutirnir voru innleiddir þar og þeir búa þó að því að geta sagt okkur hverjar afleiðingarnar hafa verið. Þær eru ekkert svo sérstaklega góðar miðað við það ef lönd missa hreinlega ákvörðunarvald um það hvað verður um þá orku sem til verður í landinu.