149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður gerði fjórða orkupakkann og skýrslu þá sem fjallað var um í Bændablaðinu töluvert að umfjöllunarefni í ræðu sinni. Ég ætla að vitna í skrifin um þessa norsku skýrslu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í skýrslunni segir m.a. að mótun lagaramma fyrir sameiginlegt orkunet Evrópu sé nú lokið með gerð orkupakka eitt, tvö, þrjú og fjögur. Lauk því ferli í desember 2018 sem samþykkt í ESB. Hefur þessi fjórði pakki verið sendur ríkisstjórn Noregs með það í huga að hann verði felldur inn í EES-samninginn í kjölfar samþykktar Stórþingsins á orkupakka þrjú í byrjun síðasta árs.“

Hér er í raun teiknað upp það ferli sem við erum að ræða — og óttumst aðeins eins og kemur fram í málflutningi okkar. Hér er verið að fjalla um að um leið og orkupakki þrjú verður frágenginn í Noregi, og þá frágenginn á Íslandi líka, vegna þess að innleiðingin þarf að eiga sér stað hér líka, einhendi menn sér í að innleiða orkupakka fjögur.

Getur verið að þingmenn stjórnarflokkanna hafi fengið ítarlega kynningu á orkupakka fjögur og þeim breytingum sem þar er að finna, t.d. varðandi eftirlitsstofnanir, framsal valds, frekari markaðsvæðingu orkunnar o.s.frv.? Maður hefði haldið, vitandi að fjórði orkupakkinn er tilbúinn, að þingmenn vildu skoða málið í heild og sjá hver samanlögð áhrif orkupakka þrjú og fjögur verða þegar búið verður að innleiða þá báða. Eins og fram kemur í þessari frétt horfa menn á það í Noregi, í það minnsta þeir sem eru fyrir utan stjórnsýsluna, að þetta sé ein heild.