149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:06]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Þetta er svolítið bratt. Það er eiginlega merkilegt að búið sé að innlima Noreg í þetta sameiginlega orkunet sem varð til með innleiðingu orkupakka eitt, tvö, þrjú og fjögur. Þessu ferli lauk þarna í desember 2018. Það er dálítið ógnvænlegt að velta því fyrir sér af hverju við höfum ekki séð hvert stefndi af því að þetta virðist liggja fyrir. Ég get ímyndað mér að nokkurn veginn sama uppskrift verði notuð hér á landi og notuð var í Noregi. Ég get ekki séð annað en að við þurfum að kalla eftir frekari upplýsingum um það hvað felst í orkupakka fjögur.

Við skulum ekki gleyma því að Evrópu skortir svokallaða hreina orku. Þetta hverfist töluvert mikið um þá staðreynd að bæði í Noregi og á Íslandi búum við svo vel að eiga svokallaða hreina orku en Evrópa er ekki svo vel stödd. ESB mun því gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma okkur inn á hinn sameiginlega evrópska orkumarkað.