149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:11]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er ástæða til að þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir að vekja okkur til umhugsunar um það sem er í vændum og eins að birta okkur þennan samanburð á því hvernig menn hafa fjallað um þessi mál í Noregi, þar sem stjórnvöld eru kannski ekki alveg eins hrædd og hér við að sýna heildarmyndina, og því sem við höfum verið að ganga í gegnum í umræðunni um þriðja orkupakkann.

Reyndar höfum við heilmiklar vísbendingar um hvað er í vændum. Þegar eru komnar brýr, ef svo má segja, yfir í fjórða orkupakkann með breytingartillögum við þær greinar þriðja orkupakkans sem við ræðum hvað mest, 713, 714 og 715, sem birtast í reglugerð 347/2013, sem er alveg gríðarlega sláandi reglugerð sem ég hafði hugsað mér að verja einni ræðu í að fjalla um síðar. Ég ætla þess vegna að að láta vera að leita álits hv. þingmanns á því strax.

Af því að hv. þingmaður nefndi Bændablaðið þá hefur það einmitt verið duglegt við að leitast við að draga fram þessa heildarmynd og hvað sé í vændum og m.a. bent á að þegar sé verið að undirbúa jarðveginn á Íslandi með sölu þessara svokölluðu aflátsbréfa eða syndaaflausna. Nú er því haldið fram að Íslendingar framleiði einungis 13% orku sinnar úr umhverfisvænum orkugjöfum, 58% með brennslu kola og annars jarðefnaeldsneytis og 29% með kjarnorku, hvorki meira né minna. Er það ekki ein af þessum skýru vísbendingum sem ættu að vekja okkur til umhugsunar um í hvað stefnir? Menn ætla að setja orkuna alla í einn pott og Ísland mun einfaldlega missa samkeppnisforskotið sem það hefur út á að framleiða 100% hreina orku.