149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:26]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir hugleiðingarnar og spurningarnar. Ég er sannfærður um að þegar menn ráðast í svona stórar framkvæmdir, svona lítil þjóð, upp úr 1960, ákveða að leggja í miklar lántökur til að geta reist langstærstu virkjun til þess tíma, langstærstu, eins og ég nefndi áðan í ræðu minni, og dreifikerfi, línu frá virkjunarsvæðinu og að álverinu, þá hafa menn auðvitað deilt um að leggja í slíka áhættu og slíkar lántökur. Og er hægt að finna heimildir um það.

Ég er líka viss um að í huga landsmanna hefur auðvitað verið sú ætlan að þetta bætti hag okkar sem þjóðar og við yrðum að sætta okkur við það að bíða í þessa áratugi, þennan aldarfjórðung eins og menn töluðu um, lánin voru upp á 25 ár, til að sjá betri tíð síðar, með betra dreifikerfi til hagsbóta fyrir almenning, til hagsbóta fyrir atvinnufyrirtækin. Sem og varð.

En menn munu ekki sætta sig við þetta. Þess vegna er þessi mikla andstaða við það regluverk sem við ræðum. Þess vegna er þessi mikla andstaða. Það má rekja hana til þess að menn horfa á þetta allt sem sína auðlind og þegar búið er að borga þennan mikla stofnkostnað, sem við erum í óðaönn að gera þessi árin og höfum verið að gera síðustu áratugi, ætlast menn auðvitað til að þessi orka verði veitt landsmönnum og atvinnufyrirtækjum í landinu á lægra verði, þegar ekki þarf að borga stofnkostnaðinn.