149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:31]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni kærlega fyrir góða ræðu, góða söguskýringu sem hollt er fyrir okkur að minnast. Það er erfitt að hugsa til þess að þessari uppbyggingu, sem hv. þingmaður lýsti svo vel áðan, verði hreinlega kastað út af borðinu ef við komum til með að samþykkja orkupakka þrjú og í framhaldinu orkupakka fjögur, þar sem hann er nú þegar á teikniborðinu, alla vega hafa margir aðrir en við hér í þessum sal séð þann pakka.

Ef svo fer sem horfir að við munum innleiða orkupakka þrjú og síðan verði orkupakki fjögur innleiddur — sú nasasjón sem við höfum þó fengið, þökk sé Bændablaðinu, — velti ég fyrir mér hvort þjóðin verði sátt við veru okkar í EES-samningnum. Ég hugsa þetta vegna þess að nú gefst okkur tækifæri til að senda orkupakka þrjú til sameiginlegu EES-nefndarinnar og mér finnst algerlega nauðsynlegt að við förum þá lagalegu leið sem felst í því að nýta okkur það sáttaferli sem við viljum hefja. Það er jafnvel til að standa, vil ég segja, föst á okkar forsendum. Ég vil að hlutirnir séu gerðir á okkar forsendum og velti fyrir mér hvort hv. þingmaður geti varpað ljósi á þetta.