149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:33]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, Íslendingar vilja halda orkuauðlindinni á forræði þjóðarinnar, það er alveg ljóst. Þessi miklu viðbrögð við þessum orkutilskipunum frá Evrópusambandinu má skýra í því ljósi. Ég er að reyna að benda á það, með ræðum mínum í kvöld, hvar ræturnar liggja í þessu sambandi.

Virkjunarsaga okkar Íslendinga hefst í byrjun síðustu aldar og eykst svo stig af stigi fram eftir öldinni, mjög hröðum skrefum á seinni hluta aldarinnar og eftir síðustu aldamót. Þessi saga er greypt í vitund mjög margra og menn horfðu til bjartari framtíðar, ekki bara í þeim skilningi að rafmagnið myndi lýsa okkur og hjálpa okkur heldur vegna þess að við myndum raunverulega eignast þessar virkjanir sem endast og endast. Það þarf ekki að byggja að nýju. Þetta eru eilífðarvélar eins langt og skilgreina má það orð í þessu sambandi. Auðvitað bjuggust menn við því að síðar meir myndu þeir hagnast á þessu í lægra raforkuverði, öllum til hagsbóta, þjóðinni og atvinnufyrirtækjunum.

Þessi saga öll er ekki bara samofin þjóðinni og virkjunarsögunni heldur líka velmegun og ekki síst byggðastefnu.