149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:37]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir hans ræðu og sögulegu innsýn. Hann starfar greinilega undir kjörorðinu: Að fortíð skal hyggja er framtíð skal byggja. Auðvitað verður manni hugsað til þess, þegar hv. þingmaður mælir hér um orkumál, að stór hluti virkjana er einmitt í hans kjördæmi, Suðurkjördæmi. Hann dregur í raun og sanni fram hið séríslenska skipulag raforkumála þar sem eru stór og öflug fyrirtæki og er það mjög ólíkt því sem gerist og gengur í Evrópu, í því kerfi sem mikil viðleitni virðist vera uppi til að draga okkur inn í. Við höfum byggt eigið dreifikerfi, eins konar sogæðakerfi fyrir raforkuna sem liggur til innstu dala og ystu nesja.

Herra forseti. Íslensk raforka, hrein og tær í vatnsföllum og í iðrum jarðar, er þjóðarverðmæti sem við verðum að verja og standa vörð um. Þar fyrir utan eru aðrir orkugjafar sem kunna að falla okkur í skaut. Reyndar er hafin uppbygging á vindorku og við þurfum að ræða það miklu nánar, líka þann erlenda áhuga sem er á því. Svo kann að fara, áður en langt um líður, að unnt verði að virkja sjávarföllin. Þar getum við verið að tala um gífurlegt raforkumagn á komandi tímum. Þannig að við þurfum að verja stöðu okkar í þessum efnum.