149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:42]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er vissulega svo að í orkumálum þarf að hugsa hátt og vítt og marka framtíðarstefnu. Hv. þingmaður gat þess að það er eins og menn hafi nánast skilað auðu varðandi þann tiltekna þátt sem hér var nefndur, vindorkuna. Mig langar til að fá að nefna, fyrst ég hef tækifæri til, að ég hef lagt fram fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra um umsóknir um rannsóknarleyfi og virkjunarheimildir fyrir virkjunum allt að 10 MW og sömuleiðis vindorkuvirkjunum. Það er náttúrlega ekki vansalaust að ekki skuli vera mörkuð stefna varðandi skipulag í þessum efnum, hvar þessum vindorkuverum sé valinn staður, m.a. frá skipulagslegu og umhverfissjónarmiði. Að sjálfsögðu verður að gera ráð fyrir því að slíkir vindorkugarðar sæti umhverfismati.