149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:43]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir þessar hugleiðingar. Ég vil nefna fleira. Við höfum verið að virkja fallorkuna og gufuaflsorkuna. Hv. þingmaður nefndi vindorkuna og við erum sammála að því leyti til. Það er fleira, það er sjávarfallaorkan, eins og hv. þingmaður nefndi í fyrra andsvari sínu, og ég held að miklir möguleikar séu víða á landinu, sérstaklega í Breiðafirði.

Ég ætla einnig að nefna aðra tegund af orku sem við höfum líka mikla möguleika í og rannsóknum fleygir fram á því sviði — Vestmannaeyingar geta kannski glaðst ef það verður raunin, en það er svokölluð ölduorka, þ.e. að virkja ölduna, öldufallið. Ég held að það sé líka næg orka víða í því veðravíti sem er í kringum Ísland. Framtíðin er því björt á sviði orkumála á Íslandi.