149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þær ræður sem hér hafa verið fluttar í kvöld og hlakka til að heyra framhald á ræðu hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar þar sem hann fer yfir þá miklu framfaramenn sem fóru í að nýta orkuna í okkar ágæta landi. Ég ætla í þessari stuttu ræðu að koma aðeins inn á svar utanríkisráðuneytisins varðandi fyrirspurnir mínar, sérstaklega er varðar orkupakka fjögur og mögulega fimm.

Fram kemur í svari ráðuneytisins að allt frá árinu 2016 hefur verið unnið að þessum fjórða orkupakka þar sem framkvæmdastjórnin lagði fram tillögu að nýrri löggjöf á sviði orkumála og ég ítreka að hér er um löggjöf að ræða. Síðan stendur í svarinu, með leyfi forseta:

„Íslensk stjórnvöld fylgjast náið með þróun framangreindra mála á vettvangi ESB og í EFTA-samstarfinu. Orkulöggjöfin var á forgangslista ríkisstjórnarinnar um hagsmunagæslu fyrir árin 2016–2017 …“

Þegar gerðirnar hafa verið formlega samþykktar á vettvangi ESB mun vinna hefjast á vettvangi vinnuhópa í EFTA við að skoða og meta löggjöfina. Í svarinu er í rauninni bara verið að lýsa því ferli sem er teiknað inn í innleiðingarferli sem okkur ber að uppfylla þegar kemur að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Nú er það svo að við höfum fengið vísbendingar um og við vitum að þessi orkupakki liggur fyrir, þ.e. orkupakki fjögur. Búið er að kynna hann, að því er virðist, fyrir norskum stjórnvöldum. Það er búið að rýna hann að einhverju leyti í Noregi. Þar kemur fram að sérstakur starfshópur er starfandi á Íslandi, eða settur af stað í það minnsta, um hagsmunagæslu og samráð varðandi innleiðingu fjórða orkupakkans. Fram hefur komið að hagsmunaaðilar hafa fengið upplýsingar um þennan orkupakka en ekki Alþingi.

Alþingi á sem sagt að bíða núna eftir því að þetta venjulega ferli, vissulega lögboðið og rétt ferli, fari af stað. Er ekki rétt að staldra við, virðulegur forseti, og spyrja hvað sé í þessum fjórða orkupakka sem hefur bein áhrif eða er í beinu framhaldi af orkupakka þrjú? Er ekki skynsamlegt að þingmenn staldri við og velti fyrir sér hvaða skref er verið að taka ef menn klára þennan þriðja pakka án þess að hafa á hreinu hvað felst í fjórða pakkanum? Er ekki rétt að rýna þennan fjórða pakka og sjá hvort ástæða sé til að staldra við með þennan þriðja núna?

Ég held að svo sé. Ég held að best sé að víkja, ekki kannski víkja út fyrir það lögbundna ferli sem við höfum samþykkt varðandi innleiðingar, heldur að nýta þau sóknarfæri sem við höfum til þess að kynna okkur málið áður en ferlið fer af stað. Við höfum oft og tíðum rætt það, og sá sem hér stendur hefur rætt það margoft í ræðustól og beitt sér fyrir því að hagsmunagæsla verði efld í Brussel vegna EES-samningsins. Nú höfum við tækifærið til að fara í raunverulega og beina hagsmunagæslu til að kynna okkur heildarmyndina af þessum tveimur orkupökkum. Ég spyr, virðulegi forseti, hvort þingmenn stjórnarmeirihlutans búi yfir slíkri þekkingu á fjórða orkupakkanum að þeir hafi ekki nokkrar áhyggjur af því að það að samþykkja núna þriðja orkupakka hafi engin áhrif eða sé í rauninni bara undanfari þess sem koma skal. Er það þannig að menn hafi fengið einhverjar kynningar á þessu?

Ég kalla eftir því að það sé upplýst hér af hálfu stjórnarmeirihlutans hvort orkupakki fjögur, tengingin við orkupakka þrjú, framhaldið af innleiðingu orkupakka þrjú, hafi verið kynnt fyrir stjórnarþingmönnum, því að það hlýtur eiginlega að vera. Ég trúi ekki að menn séu svo værukærir að ætla að samþykkja þennan þriðja pakka þegar þeir vita að það er meira að koma sem byggir á þeirri innleiðingu. Það er með ólíkindum ef svo er.

Í svari ráðuneytisins er þetta í rauninni bara staðlað svar, minnst er á að taka á upp átta gerðir. (Forseti hringir.) — Nú er tíminn búinn, herra forseti.