149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:50]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu ræðu og hlakka til að heyra framhald hennar. Staðan er þessi: Hér liggur fyrir mál sem er svo hræmulega illa undirbúið að það er á mörkum þess að geta talist þingtækt. Við höfum fyrir framan okkur vandaða álitsgerð þeirra tveggja lögspekinga sem oftast eru nefndir. Þar kemur fram að þeir telja það ekki duga, en segja a.m.k. tvisvar í sinni álitsgerð að verulegur vafi leiki á því að innleiðing þessara gerða standist stjórnarskrá.

Þeir rekja það ítarlega hvernig ákvæði í þeim gerðum sem er verið að innleiða hér og gefa hér lagagildi að landsrétti, taka inn í íslensk lög, leiðir af sér að erlendir aðilar fái ítök eða nái því að hafa a.m.k., eins og það er orðað, óbein áhrif og: Á hvað? Á skipulag, ráðstöfun og nýtingu íslenskra orkuauðlinda í eigu þjóðarinnar.

Til grundvallar þessari umræðu liggja ekki fullnægjandi gögn. Það liggja engin fullnægjandi gögn um hinn svokallaða lagalega fyrirvara. Hann hefur ekki verið rýndur eða greindur. Ekki liggja fyrir gögn um þennan fjórða orkupakka sem bíður handan við hornið. Ekki liggja fyrir gögn um það hvernig til tókst í Noregi þar sem uppi voru áform um að innleiða orkupakkann, í því landi, með ekki færri en átta fyrirvörum að kröfu Verkamannaflokksins þar í landi.