149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég man ekki betur en að a.m.k. tvær skýrslur hafi verið unnar um hvaða áhrif útflutningur á raforku um streng myndi hafa á íslenskan orkumarkað. Að minnsta kosti í annarri þeirra var sett á tala, ég man reyndar ekki í svipinn hver talan var, um hversu mikið rafmagn myndi hækka til einstaklinga og fyrirtækja. Sú upplifum sem Norðmenn hafa fengið mun að sjálfsögðu koma fram á Íslandi líka.

Í því máli sem við erum með á borðum okkar í dag erum við hins vegar að innleiða hugmyndafræðina. Við erum að innleiða og gefa frá okkur, eins og kom fram áðan, eða leyfa í það minnsta íhlutun á skipulagi raforkumála okkar á nýtingu og þeirri umsýslu sem við teljum að okkur sé svo mikilvægt að halda á sjálf.

Ekki munu gilda neinar aðrar reglur um Ísland en önnur lönd þegar við erum búin að innleiða þessar tilskipanir. Sú tveggja stoða lausn sem er skrifuð inn í þetta er að mínu viti ófullkomin og ef fyrirmyndin er algjörlega eins og varðandi fjármálamarkaðinn getum við hugsað hvort við höfum gert mistök þar. Mistök getum við gert og erum sjálfsagt alltaf að gera en það sem ég hef áhyggjur af er að það skref sem hér er verið að taka sé enn eitt skrefið í því að láta erlenda aðila, alþjóðastofnanir og eftirlitsaðila, hafa ítök í íslenskum orkumarkaði og hafa áhrif á hvernig hann þróast.