149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, sæmilegur orkumarkaður, samleitni og sömu reglur munu að sjálfsögðu gilda á Íslandi nema einhvers konar varanlegar undanþágur fáist frá reglunum. Við fengum undanþágu vegna jarðgass, við erum ekki tengd Evrópu og hér er ekki unnið jarðgas, ekki enn í það minnsta. Við erum ekki heldur tengd meginlandinu fyrir rafmagn og ættum því að vera á undanþágu frá því líka. Ég er ekki frekar en hv. þingmaður talsmaður þess að menn segi sig frá EES-samningnum. Það verður líkt og um aðra samninga að hafa heimild til að ræða þróun hans, til að ræða kosti og galla og það er enginn að segja að það stofni samningnum í hættu. Þeir sem hins vegar teikna samninginn upp sem einhvers konar ógnarsamning gagnvart Íslandi myndi ég segja miklu frekar að væru að setja inn hættu.