149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:11]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég hef verið nokkuð hugsi og flutt um það nokkurt mál í dag um þá staðreynd hvernig það virðist sem þingmenn stjórnarflokkanna þriggja séu í engum tengslum við bakland sitt og það lýsir sér með ýmsum hætti. Til dæmis hefur maður í raun og veru þurft að standa í debatti, afsakið, herra forseti, við Vinstri græn til að berjast gegn því að þau markaðsvæði íslenska orku. Ég hélt satt að segja að ég myndi ekki lifa þann dag að ég þyrfti að gera slíkt. En það er nú svo merkilegt að þetta er það sem er að raungerast hér þessa dagana á þingi. Þetta ástand er í sjálfu sér eins eða líkt í Sjálfstæðisflokknum. Við sem höfum staðið þessa vakt hér í nokkurn tíma fáum mjög mikið af skilaboðum og viðbrögð frá fólki, sérstaklega úr Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, sem er náttúrlega hundóánægt með frammistöðu síns fólks. Það fólk kaus ekki, eftir því sem það segir okkur og skiljanlega, þessa flokka til að afsala sér auðlindum Íslands í hendur annarra.

Ein nýleg grein er úr Morgunblaðinu frá því snemma í maí eftir Tómas Inga Olrich. Tómas Ingi Olrich er ekki einhver maður úti í bæ, hann er trúnaðarmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann er fyrrverandi alþingismaður og ráðherra þess flokks, fyrrverandi sendiherra Íslands á vegum Sjálfstæðisflokksins. Hann er greinilega búinn að fá sig fullsaddan af því hvernig þessi mál eru vaxin og fer gríðarlega vel yfir það í greininni frá því í maí hvernig þeir sérfræðingar sem mest hefur verið vísað til í þessari umræðu, sem eru vandaðir og merkir fræðimenn, eins og hann segir, „reyna eftir atvikum að láta ekki ýta sér út í stjórnmál.“ Sem er alveg hárrétt hjá þeim ágæta fyrrverandi hv. alþingismanni.

Í neðanmálsgrein á blaðsíðu 35 í margumræddri greinargerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar segir, með leyfi forseta:

„Ekki má þó gleyma að hafni Orkustofnun umsókn fyrirtækis þar að lútandi„ — þ.e. ef búið væri að leggja hér sæstreng — „gæti fyrirtækið snúið sér til ESA með kæru sem gæti endað með samningsbrotamáli gegn Íslandi. Slík staða gæti reynst Íslandi erfið. “

Tómas Ingi lýsir því í nokkrum orðum hvernig hæstv. utanríkisráðherra leitaði nánari skýringa, eins og hann segir mjög kurteislega, hjá skýrsluhöfundunum tveimur sem unnu álitið. Hann segir réttilega:

„Í svarinu draga lögfræðingarnir ekki til baka neðanmálsaðvörun sína í álitsgerðinni — með leyfi forseta, er ég að lesa upp eftir Tómas Inga Olrich — „en þeir ganga eins langt og hægt er til að draga úr veikleika þeirrar lausnar sem ríkisstjórnin hefur valið. Þeir telja „ósennilegt“ að eftirlitsstofnun ESA, EFTA/ESA, geri athugasemd við þá leið sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að fara…“. En sérfræðingarnir segja í lokin:

„Í áliti okkar lögðum við til aðra leið, að Alþingi hafnaði innleiðingu gerðanna og að málið yrði tekið upp að nýju í sameiginlegu nefndinni með það fyrir augum að Ísland fengi undanþágu.“

Hljómar þetta kunnuglega, herra forseti? Þetta er nákvæmlega sá málflutningur sem við Miðflokksfólkið höfum haldið uppi dögum saman, en félagar hæstv. forseta í Sjálfstæðisflokknum hlusta ekki. Það er ekki von að þeir hlusti á okkur, þeir hlusta ekki á sína eigin kjósendur.

(Forseti (BN): Forseta finnst allt hljóma kunnuglega sem hér hefur komið fram.)