149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:30]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan virðist það vera á áætluninni að halda áfram að kjósa í Bretlandi þangað til rétt niðurstaða fæst þannig að Bretland fari hvergi. Marghertur forsætisráðherra Bretlands, sem búið er að hæða og spotta á allan hátt og ganga mjög nærri, virðist vera að bogna undan pressunni og ætlar nú að grípa til þeirra úrræða, virðist vera, eða opna á þann möguleika, að kjósa á ný þar til þóknanleg niðurstaða fæst.

Þó að EES-samningurinn sé í orði kveðnu samningur milli tveggja aðila þá virðist svo sem ákvæði hans — og það kannski skýrir hræðslu núverandi ríkisstjórnarflokka við þennan samning — séu í sjálfu sér einhliða, þ.e. í þágu (Forseti hringir.) Evrópusambandsins en á kostnað þeirra sem gera sjálfstæða samninga við það bandalag.