149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:31]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður kom inn á ótrúlegan viðsnúning flokkanna og þá sérstaklega þeirra sem eru fylgismenn þingsályktunartillögunnar sem hér um ræðir. Það er með ólíkindum að fylgjast með því að engin almennileg umræða hefur átt sér stað hér, engin umræða fylgismanna við okkur sem höfum staðið á móti þessu. Það er engu líkara en að menn hlaupi frá málinu í trausti þess að Miðflokkurinn verði í lok dags flautaður út af vellinum, að þetta verði keyrt í gegn án þess að tillit sé tekið til þess sem við höfum fram að færa hér og án þess að leitað sé sátta við þá sem eru andvígir þeirri leið sem hér hefur verið valin, og án þess að leita sátta í sínu baklandi.

Það er deginum ljósara að það sem hér á að gera nýtur ekki fylgis úti í þjóðfélaginu.

Ég tek undir með orðum hv. þingmanna sem stóðu hér í ræðustól á undan mér: Maður harmar það ekki að fylgi hrynji af þeim sem eru andstæðingar manns í stjórnmálum, en þetta mál er hafið yfir flokka, hafið yfir flokkslínur og pólitíska drætti. Þetta er risastórt hagsmunamál þjóðarinnar. Ég myndi vilja velta því aðeins fyrir mér, (Forseti hringir.) og bið hv. þingmann um að skoða það líka, hvort þingmenn sem fylgja þessu máli eftir séu komnir úr tengslum við kjósendur sína.