149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:38]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er laukrétt. Þeim sem eru á móti þessari gjörð er legið á hálsi fyrir að vilja eyðileggja EES-samninginn, eins og það er sagt, með því að nýta tvær greinar úr honum, nr. 102 og 103, með því að fara þá sjálfsögðu leið að beina þessu máli aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem er hin rétta lögformlega leið. Nei, menn vilja ekki gera það, menn vilja keyra áfram fulla ferð. Og menn vilja fara svo langt með þetta mál að eina leiðin til baka sé einmitt þetta sem hæstv. utanríkisráðherra viðraði hér í upphafi umræðu um þetta mál, þ.e. að segja þessum samningi upp. Það er hins vegar ekki vilji þeirra sem eru að berjast á móti þessum gjörningi. Það sem vakir fyrir okkur (Forseti hringir.) er það að farin sé lögformleg leið (Forseti hringir.) að því að gera þennan samning eins góðan fyrir Ísland og hægt er.