149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:39]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Virðulegur forseti. Nú er mér nokkur vandi á höndum. Ég var búinn að boða að ég flytti hér ræðu um stöðu mála í Noregi og tengsl við stöðuna hér á Íslandi og ég verð að standa við það fyrst ég er búinn að fresta henni einu sinni. En svo hefur svo margt gerst í millitíðinni. Þessi ótrúlega umræða sem upp hefur komið um fjórða orkupakkann kallar náttúrlega á nánari greiningu. Og svo rétt í þessu barst mér í hendur sjóðandi heit skýrsla um einmitt fjórða orkupakkann frá „Oxford Institute for Energy Studies“. Ég veit að virðulegur forseti vill að við tölum íslensku hér, en ég veit ekki hvort þessi stofnun hefur íslenskt nafn, ég myndi þýða þetta lauslega sem Rannsóknarsetur Oxford-háskóla um orkumál, en það verður þá að bíða næstu ræðu. Svoleiðis að ég vil biðja virðulegan forseta að setja mig aftur á mælendaskrá því að ekki má gleyma ræðunni um Kýpur og tengingu Kýpur með sæstreng sem getur varpað, að mínu mati, nýju ljósi á þetta allt saman.

Það sem ég ætlaði að ræða var staða mála í Noregi.

Því var haldið fram af hæstv. utanríkisráðherra í upphafi þessarar umræðu, eða áður en hún hófst réttara sagt í fjölmiðlum, að við Miðflokksmenn og væntanlega Sjálfstæðismenn og fleiri sem hafa efasemdir um þennan orkupakka gerðum það sem einhvers konar handbendi norska Miðflokksins. Það er ekki rétt, virðulegur forseti. Norski Miðflokkurinn hefur ekki verið að keyra þetta mál áfram en hefur hins vegar fjallað mjög vel og ítarlega um það í Noregi, en það hafa miklu fleiri flokkar gert líka. Þetta var nefnilega mjög erfitt mál í norskum stjórnmálum og erfitt fyrir ríkisstjórnina að koma því í gegnum þingið. Það tókst á endanum með því að samhliða yrðu samþykktir átta lagalegir fyrirvarar. Þá er ég ekki að tala um ímyndaða fyrirvara eins og menn hafa verið að leita að hér í húsinu undanfarna daga, stjórnarliðar, og talið sig finna einhvers staðar í orðalagi í greinargerð eða einhverju slíku. Nei, það var krafa norskra þingmanna að settir yrðu átta raunverulegir lagalegir fyrirvarar. Og ég er með þá fyrirvara, virðulegur forseti. Mér sýnist ég ekki hafa tíma til að rekja þá í þessari ræðu en það þarf að gera þeim skil.

En það sem er hins vegar mjög merkilegt við þessa fyrirvara, lagalega fyrirvara, að mati norska þingsins, er að liðnir eru 14 mánuðir, hafi ég reiknað það rétt, frá því að þingið sendi þessa fyrirvara til Evrópusambandsins til að fá staðfestingu á því að þeir hefðu eitthvert gildi, en bréfinu hefur ekki verið svarað enn. Og hvers vegna skyldi það vera? Getur ekki verið, mér finnst það reyndar liggja í augum uppi, að þeir sem tóku við þessu bréfi í Brussel hafi sett það í stóra fælinn. Og hvað á ég við með stóra fælnum? Þegar ég vann sem fréttamaður á Ríkisútvarpinu bárust þangað ýmis erindi á hverjum degi og vaktstjórarnir skoðuðu þau erindi og sum þeirra, reyndar býsna mörg, kannski flest, voru sett í stóra fælinn, sem þýddi að þeim var hent beint í ruslakörfuna. Enda er það ljóst að afstaða Evrópusambandsins er sú að það sé ekkert til sem heiti einhliða fyrirvarar við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Þess vegna hafa menn væntanlega talið þetta, að þeirra mati, einhvers konar lofsamlegar blekkingar til að fá norska þingið til að innleiða, eða talið þetta vera fyrirvara til heimabrúks, svo stuðst sé við orðalag úr umræðunni á Íslandi. En þetta sýnir okkur svo ekki verður um villst hversu lítið hald er í þessum svokölluðu íslensku fyrirvörum.

En þá að áhrifum Noregs á hugsanlega endurvísun til sameiginlegu EES-nefndarinnar. — Nú er ég lentur í vandræðum. Virðulegur forseti skammtar mér svo naumt tíma að ræðutíminn er búinn og ég er ekki hálfnaður með þessa ræðu um norsku tenginguna. Ég veit reyndar að virðulegur forseti getur ekki skammtað (Forseti hringir.) lengri tíma í senn, en ég bið forseta fyrir vikið að skrá mig aftur á mælendaskrá.