149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur séð eða fengið sömu ábendingar og sá er hér stendur um að hinir svokölluðu lagalegu fyrirvarar í Noregi, átta talsins, sem Evrópusambandið hefur ekki gert neitt með fram til þessa, hafa heldur ekki verið innleiddir í norsk lög. Það hafa ekki verið lögð fram frumvörp að mér er sagt í norska þinginu með þessum fyrirvörum til að gera þá að lögum í Noregi. Maður spyr sig þá væntanlega: Er það ekki enn ein sönnunin fyrir því að þetta er allt eitthvað svona, hvað kallaði fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins það, sjónhverfingar, já, eitthvað slíkt, sem átti sér stað í Noregi.

Það er líka áhugavert að hugsa til þess að það gæti farið svo að ef við verðum svo ólukkuleg á Alþingi að samþykkja þennan orkupakka þá muni hann væntanlega taka gildi á Evrópska efnahagssvæðinu áður en norsku fyrirvararnir fá einhver gildi eða að þeim sé svarað og fjórði orkupakkinn byrjar strax að tikka, þ.e. að innleiðing fjórða orkupakkans hefst væntanlega í Noregi um leið og við erum búin að afgreiða þetta hér, og þá eru þeir staddir á þeim stað að hafa ekki fengið neina fyrirvara eða spurningum svarað sem þeir settu á sínum tíma við þriðja orkupakkann, blessaðir Norðmennirnir.

Er ekki mikilvægt fyrir okkur Íslendinga og ekki síst þingmenn stjórnarmeirihlutans að setjast niður og segja: Heyrðu, við verðum að vita hvað er í þessum fjórða orkupakka. Við verðum að sjá heildarmyndina af þrjú og fjögur. Við getum ekki haldið svona áfram. Við getum ekki lokað augunum fyrir því að mögulega er þarna um mikið framsal valds að ræða. Við verðum að fresta þessu máli, taka það aftur upp í haust og klára það ef niðurstaðan er sú að fjórði orkupakkinn er með þeim hætti að hann er ásættanlegur og við fáum þær undanþágur þriðja orkupakkans sem við þurfum.