149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Án þess að láta þessa ræðu eða þetta kvöld snúast endilega um norsk stjórnmál þá er það vitanlega rétt hjá hv. þingmanni að mikill meiningarmunur er á milli embættismannakerfisins í Noregi og pólitíkurinnar í rauninni og svo íbúa Noregs um hvert skal stefna varðandi Evrópusambandið. Það kæmi mér ekki á óvart þó að ekki væri alveg einhugur milli stjórnmálamanna og embættismanna um hvaða leið á að fara varðandi þennan orkupakka. Við munum reyndar eftir því, ætli það hafi ekki verið síðasta sumar þegar fréttamyndir birtust af tveimur utanríkisráðherrum úti á túni einhvers staðar á Íslandi þar sem þeir voru að skoða heyrúllur. Ég man ekki hver afsökunin var, hvort það var eitthvað varðandi varnarmál eða ferðamál, en augljóst var hins vegar að norski ráðherrann var hingað kominn til að reyna að beita Íslendinga þrýstingi til að innleiða þennan orkupakka, enda tilheyrir ráðherrann flokki sem er mjög undirgefinn Evrópusambandinu.