149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:59]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna.

Það er einhvern veginn þannig að ég hef „tendens“ til að halda að við Íslendingar eigum að læra af mistökum annarra eða reynslu annarra, ef við getum orðað það þannig, sem okkur hættir til að vilja ekki gera. Nú er það þannig, að mér skilst og mig langar að spyrja hv. þingmann sérstaklega eftir því.

Mér hefur skilist að í Noregi sé enn uppi ágreiningur um innleiðingu þriðja orkupakkans þar í landi og að alla vega hluti þess máls sé fyrir norskum stjórnlagadómstól og óútkljáð. Þetta er kannski ein af ástæðum þess að ég hef talið að meðan svo er ættum við Íslendingar að fara okkur hægt í því að innleiða þennan þriðja orkupakka ef í ljós kemur í Noregi, þó að það sé kannski í sjálfu sér ekki alveg sambærilegt lagaumhverfi okkar, að stjórnlagadómstóll kemst að því að innleiðing orkupakkans standist ekki norsku stjórnarskrána, eins og mér hefur skilist að uppi séu álitamál um.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann um þetta, hvort hann kannist við þetta ástand og hvort hann sé ekki sammála mér, ef það er raunin að þetta sé svona, um að það sé kannski affarasælast fyrir okkur Íslendinga að flýta okkur hægt, enda liggur okkur ekkert á við að innleiða þennan þriðja orkupakka þar til séð verður hvaða örlög hann fær í stjórnlagadómstól í Noregi. Er ekki rétt að við bíðum aðeins eftir þeirri niðurstöðu, hv. þingmaður?