149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:05]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er bara enn eitt dæmið um tvískinnungshátt af hálfu talsmanna þessa máls og gengur það langt í þessu tilviki að maður verður líklega bara að líta svo á að þetta sé hálfskondið, eiginlega að hafa bara húmor fyrir þessu, þegar fólkið sem er að reyna að hræða fólk með því að það eitt að vilja fylgja ákvæðum EES-samningsins og nýta þau tækifæri sem hann veitir okkur, geti orðið til þess að Evrópusamstarfið flosni upp og við einangrumst og ég veit ekki hvað og hvað, að það fólk á sama tíma bendi í hina áttina og segi: Þið eruð bara með einhvern hræðsluáróður.

Við erum einfaldlega að benda á mikilvægi þess að verja þessa grundvallarhagsmuni þjóðarinnar eins og íslensk stjórnvöld hafa leitast við að gera frá upphafi en ekki að finna neinn nýjan hræðsluáróður. Hann kemur allur úr átt stuðningsmanna þessa máls.