149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:06]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Í dag og í kvöld hafa farið fram ágætisumræður um orkumálin hér og þá sér í lagi orkupakka þrjú og orkupakka fjögur. Aðeins hefur verið tæpt á framtíðarsýn sem er jafnvel handan við hornið með áframhaldandi innleiðingu á orkupakka fimm. Eins og ég skil þetta þá er það á hreinu að innleiðing á orkupakka þrjú leiði til þess að ACER, orkustofnun ESB, nái yfirþjóðlegri stöðu á Íslandi. Það þýðir að regluverk orkupakkans mun sannarlega ganga yfir íslensk lög og standa hærra í lagalegu tilliti. Það felur í raun í sér algjört og mjög víðtækt valdaafsal Íslands í orkumálum. Afleiðingin verður sú að hvaða lög og reglur sem menn kunna að setja hér á landi, t.d. um mögulegt bann við lagningu sæstrengs, verður það ekki pappírsins virði. Ég er nokkuð viss um að sæstrengur verður næsta skref þó svo að fylgjendur orkupakka þrjú segi oft og tíðum að það sé ekkert um sæstrenginn í þessum orkupakka.

Íslenska fyrirtækið sem við þekkjum öll, Landsvirkjun, er enn með sæstrengslögn um Icelink til Bretlands á stefnuskrá sinni og eru upplýsingar um það á vefsíðu fyrirtækisins. Slíkur strengur myndi, um leið og hann yrði tengdur við Bretland — þess vegna ræddi ég mikið um Brexit áðan — hafa afdrifarík áhrif hér á landi. Því hefur meira að segja verið haldið fram af Landsvirkjun að slíkur strengur muni leiða til betri nýtingar á svokölluðu launafli í íslenska orkukerfinu og það kann að vera rétt. En umtalsverður hluti af slíku launafli sem færi inn á strenginn myndi tapast og verða svokallað orkutap. Þá er yfirleitt ekkert talað um að strengurinn verði mjög dýr og verði ekki lagður nema tryggt sé að stöðugt orkuflæði verði um hann og þar af leiðandi frá Íslandi.

Það segir okkur, miðað við þær tölur sem forsvarsmenn Landsvirkjunar hafa sett fram, að hér þurfi að byggja sem svarar einni Kárahnjúkavirkjun eða þremur Blönduvirkjunum til þess eins að fóðra strengina hreinni raforku. Ég efast um að samstaða náist um slíkt meðal núverandi stjórnarflokka og því hlýtur sú spurning að vakna hvort hið yfirþjóðlega vald, sem felst í því að undirrita orkupakka þrjú, geti hreinlega yfirunnið mögulegar íslenskar laga- eða reglugerðahindranir sem stæðu þá í veginum.

Það er nefnilega þannig að lítill hluti orku Evrópulandanna er af endurnýjanlegum uppruna. Samkvæmt tölum Eurostat voru aðeins 12,5% allrar orku í löndum ESB af endurnýjanlegum uppruna árið 2010. Markið var sett á 20% árið 2020 en hlutfallið hækkaði ekki nema um 0,7% fram til 2016 og var þá komið í 13,2%. Ef takast á að ná þessum markmiðum, um endurnýjanlega orku, þarf augljóslega að sækja hluta af hreinni orku eitthvað annað og hann dugar ekki til lengdar blekkingarleikurinn sem við ræddum hér fyrr í dag með pappírslegum tilfærslum á hreinni orku frá Íslandi í formi syndaaflausna eða hreinleikavottorða.

Það er nokkuð ljóst á hvaða vegferð við erum og ég tel réttast að staldra við og fá álit sameiginlegu EES-nefndarinnar á því hvort við getum sett raunverulegan lagalegan fyrirvara á þá mynd sem blasir við öllum þeim sem vilja sjá.