149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:18]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er töluvert vald falið í því að viðurkenna mistök. Ég tek undir að það væri æskilegt að endurskoða þá leið sem við erum á. Mér dettur Landspítalinn í hug í þessu sambandi en ég hef gjarnan talað um að það sé akkúrat núna sem við eigum að endurskoða áformin um að halda áfram með Landspítala við Hringbraut. En gott og vel.

Þegar verið er að tala um raforkuverð og hvernig raforka og allt sem henni tengist muni þróast í framhaldinu gef ég mér að ekki yrði áfram sama fyrirkomulag með Landsvirkjun, sem nú hefur yfirgnæfandi samkeppnisstöðu, ef við getum sagt sem svo, á okkar markaði. Það er alveg ljóst að með innleiðingu á orkupakka þrjú bryti það í bága við regluverk ESB. Þar yrði krafa um að Landsvirkjun yrði bútuð niður í smærri einingar vegna þess að ekki yrði leyfilegt að halda áfram með svo yfirgnæfandi samkeppnisaðila á þessum stóra markaði. Ég sé fyrir mér að við munum síðan tengjast í þessi svæði og öll jafnast upp á við, þ.e. verð raforku mun hækka. Ég sé ekki hvernig þetta getur endað vel og ítreka það enn og aftur, sem við erum sammála um, að nú er tími til að líta til sameiginlegu EES-nefndarinnar og fá úr því skorið hvert við eigum að stefna og í hvað við erum tilbúin á okkar forsendum.