149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:22]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir andsvarið. Það er nefnilega það sem er þó hægt að segja að við segjum mjög oft hér í þingsal núna undanfarna sólarhringa. Við erum hreinlega með ákall um að senda orkupakka þrjú út til sameiginlegu EES-nefndarinnar til þess að við getum fengið sannarlega lagalega fyrirvara á því sem við viljum innleiða og á okkar forsendum.

Við höfum fengið að vita það á umliðnum árum að klagað hefur verið yfir því hversu illa við höfum farið eftir því að innleiða ýmsa þætti er snúa að EES-samstarfinu. Það er þá rétt núna þegar við bendum ítrekað á það, að í þetta sinn viljum við gera hlutina rétt. Mér finnst stórmerkilegt að þessi andstaða sem birtist hér innan þingsins er sannarlega ekki endilega meðal allrar þjóðarinnar, en mér finnst merkilegt að fólk skuli setja sig upp á móti því í ljósi þess að það hefur verið sett út á það hversu illa við höfum staðið okkur í því að innleiða þessa þætti. Mér finnst einmitt þegar við heyrum mann eins og Jón Baldvin Hannibalsson setja þessa fyrirvara og sína umsögn svona skýrt fram, eins og raun ber vitni, þá beri okkur að hlusta á það og jafnvel að taka mark á því.