149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:26]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Þetta er nefnilega stórmerkileg staða sem við erum í núna. Við viljum gjarnan að hér verði staldrað við og farin verði hin lögbundna rétta leið. Það er merkilegt að þau stjórnvöld sem standa að innleiðingu þriðja orkupakkans hafni því og segi að þau séu búin að gefa út, ég vil kalla það yfirlýsingar. Það eigi að vera nóg, þegar við höfum hlýtt á ræður í dag og í kvöld sem segja okkur þvert á móti, ef við lítum t.d. til þess sem var sett fram í Noregi með þessa átta fyrirvara sem áttu að halda og ekkert hefur til þeirra spurst.

Það er líka merkilegt því að nú erum við með þá sem eru reynslumiklir í að fást við þessa hluti, menn eins og Jón Baldvin Hannibalsson, að ekki sé hlustað á varnaðarorð hans og ekki bara það, hann bendir líka á leiðirnar og það finnst mér alltaf skipta svolitlu máli, að setja ekki bara út á, heldur að benda einmitt á lausnir og betri leiðir og það muni verða til þess að við séum örugglega að framkvæma það sem okkur ber á réttan máta.

Þess vegna finnst mér undarlegt að upplifa þessa andstöðu og ég vil segja eins og einhver sagði í dag, að keyra á málið í gegn. Við fáum ekki að sjá hvað fylgir með í framhaldinu þó svo að aðilar úti í bæ, eins og það kallast, hafi fengið að sjá hvað felst í orkupakka fjögur, kannski er þetta allt bara litað svona ljósrautt þannig að fólk sé sátt við vitleysuna sem er í gangi.