149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:37]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Jú, þetta er einmitt sá sami orkumálastjóri og vitnað var í, sem átti fund með hæstv. utanríkisráðherra nýverið og þessi blaðamannafundur átti sér einnig stað nýverið og greinin var skrifuð 9. apríl síðastliðinn.

Það er akkúrat málið. Maður getur skilið, eins og ég hef oft lýst í ræðum, þessa meginlandshugmyndafræði á meginlandinu og Evrópusambandið hefur barist fyrir því að minnka notkun jarðefnaeldsneytis og hefur verið að reyna að búa til hvata til að ná fram þeim markmiðum, en núna virðist vera komið annað hljóð í strokkinn að því leyti að þeir telja að nú sé Evrópusambandið búið að leggja nokkuð mikið af mörkum, talar um 5 milljarða evra, sem er varið í þessi mál. Ég myndi sjá fyrir mér, ef þetta nær fram að ganga og með í raun og veru þessari ACER stofnun, þá verði framlag okkar Íslendinga í þessu máli kannski ekki endilega á þann hátt að við yrðum skattlögð til að greiða niður óhreina orku eða orku sem framleidd er með jarðefnaeldsneyti, heldur að við myndum framleiða hreina orku og kannski meira en það sem við þurfum akkúrat hér innan lands til að knýja heimili og þann iðnað sem hér er innan lands, heldur yrðu settar kvaðir í þessum fimmta orkupakka um að við nýtum þær auðlindir á þann hátt að sem best geti þjónað heildarhagsmunum sambandsins, enda er stefna sambandsins heildarstefna.