149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er svona undirstrikun sem hv. þingmaður hefur sagt okkur hér í kvöld í ræðu sinni, þetta undirstrikar það sem við höfum verið að segja í umræðunni núna um töluvert skeið, að Evrópumarkaðurinn, þ.e. orkumarkaðurinn og þær reglur og kröfur sem Evrópusambandið gerir eru í sífelldri breytingu, breytist sífellt. Ég held að hv. þingmaður hafi nefnt það í ræðum sínum að þetta væri í rauninni allt saman eins og lifandi markaður, lifandi plagg, þessar gerðir Evrópusambandsins um orkumarkaðinn. Það er vitanlega vegna þess að Evrópusambandið hefur markað sér ákveðna stefnu til 2030, ef ég man rétt, og svo 2050, um að ná ákveðnum markmiðum og til að ná þeim munu reglur taka ákveðnum breytingum. Því er í rauninni kannski ekki óeðlilegt í ljósi markmiðanna að orkumálastjórinn sé farinn að horfa til þess að það þurfi að grípa inn í skattkerfið til að hafa einhver áhrif á skattkerfið eða ná tökum á því til að hafa áhrif á framþróun og þann árangur sem Evrópusambandið vill ná með þessum settu markmiðum sínum.

Þess vegna er mjög mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því eins vel og við mögulega getum hvað framtíðin ber í skauti sér. Sumt getum við ekkert spáð fyrir um, það vitum við, en það er óþarfi að horfa fram hjá því sem við getum séð nú þegar og þurfum ekkert að spá fyrir um, heldur í rauninni bara að átta okkur á þýðingu og afleiðingum, og þar er ég að tala um fjórða orkupakkann sem liggur fyrir og það væri því nauðsynlegt fyrir okkur að sjá hvaða breytingar hann hefði, m.a. í þá átt sem hv. þingmaður talar um hér.