149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:44]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég hafði í mínum tveimur fyrri ræðum hafið yfirferð yfir virkjunarsögu landsins og ætla að halda áfram með þá sögu, enda tel ég að við getum margt af henni lært, eða eins og segir í máltækinu: „Að fortíð skal hyggja, er framtíð skal byggja.“

Ég hafði nefnt í fyrri ræðum nokkra frumkvöðla á sviði smíði rafstöðva á fyrri hluta síðustu aldar sem smíðuðu úr nánast engu tækjabúnað sem var þess megnugur að beisla vatnsaflið til að létta verkin með forfeðrum okkar og færa yl og ljós inn á heimili landsmanna. Þá má einnig fljóta hér með að margir töldu þessa virkjunarsmíði á þessum bernskuárunum rafvæðingarinnar óvinnandi, þar sem mjög lítil og ófullnægjandi verkfæri voru til staðar, en þær raddir þögnuðu smám saman þegar í ljós kom að gripirnir skiluðu því sem til var ætlast. Enda segir sagan að vinna frumkvöðlanna, eins og t.d. Bjarna í Hólmi í Skaftafellssýslu, hafi þótt í alla staði mjög vandasöm og einkennast af mikilli útsjónarsemi þar sem hugsjón skipaði stóran sess.

Herra forseti. Ég fór yfir fyrstu virkjanirnar og þá staðreynd að sífellt voru byggðar stærri virkjanir og oft hver ný virkjun stærri en þær sem fyrir voru og jafnvel uppsett afl nýrrar virkjunar stærra en allt uppsett afl til þeirra tíma sem hún var byggð. Þannig var fyrsta stóra virkjunin næsta örsmá í samanburði við þær stórvirkjanir sem síðar komu til og þótt virkjun Elliðaánna í Reykjavík 1921 virtist stór á þeirra tíma mælikvarða, 3,2 megavött, varð hún fljótt lítil í samanburði við það sem síðar kom. Þannig var Ljósafossstöðin sem byggð var 16 árum síðar, eða 1937, margfalt stærri en Elliðaárstöðin, eða 16 megavött. Það met var slegið 16 árum síðar með byggingu Írafossstöðvarinnar 1953, sem var 48 megavött, eða þrisvar sinnum stærri en Elliðaárnar. Árið 1960 var uppsett afl allra virkjana komið í samtals 150 megavött. Næsta virkjun eftir þetta markaði tímamót, þar á ég við Búrfellsvirkjun um 1969, en sú stöð var fimm eða sex sinnum stærri en þær sem áður höfðu verið byggðar, en afl hennar var 270 megavött, sem var meira en allt það afl sem áður hafði verið beislað. Orka Búrfellsvirkjunar var beinlínis ætluð til stóriðju, nánar tiltekið til álbræðslunnar í Straumsvík. Var það nýlunda.

Það sést glöggt að menn áætluðu að greiða upp kostnað við virkjunina og dreifikerfið á aldarfjórðungi þannig að landsmenn litu svo á að það væri áhættunnar virði að þjóðin myndi eignast virkjunina og dreifikerfið skuldlaust rétt fyrir eða um síðustu aldamót. Þetta er mikilvægt að hafa í huga, herra forseti, í dag þegar við ræðum framtíð auðlindarinnar, þá staðreynd að þjóðin sameiginlega hefur byggt upp raforkukerfi landsins. Upp úr miðjum áttunda áratugnum er beislað heildarafl á landinu orðið tæp 600 megavött, og ekki eru þó allar vatnsaflsvirkjanir. Þá eru til komnar líka gufuaflsvirkjanir. Þar á eftir, um 1978, komu nokkrar stærri virkjanir, Sigalda 150 megavött, Hrauneyjafoss 210 megavött. Síðan líða níu ár þar til næsta stóra virkjun leit dagsins ljós og þá komu tvær nokkuð stórar virkjanir, sem voru Nesjavellir 120 megavött og Blanda á Norðurlandi 150 megavött árið 1991.

Um og fyrir aldamótin komu síðan enn tvær nokkuð stórar virkjanir, Sultartangi 120 megavött og Vatnsfellsstöð 90 megavött. Þegar þarna var komið, um aldamótin, var heildaraflið í virkjunum landsmanna komið í 1.300 megavött og athyglisvert að sjá að í dag er aflið helmingi meira en um síðustu aldamót.

Mikill atgangur var í virkjunarmálum rétt eftir aldamótin. Var virkjað af krafti á þeim árum. Reykjanesvirkjun 2006, 100 megavött, Hellisheiðarvirkjun 303 megavött, sem var nýtt met frá tíma Búrfells. Á svipuðum tíma var komið að langstærstu virkjun okkar Íslendinga og áður en hún var tekin í notkun höfðum við virkjað 1.800 megavött, en Fljótsdalsvirkjun 2007, ein og sér hafði uppsett afl 690 megavött og var langstærsta virkjun sem hér hefur verið tekin í notkun og er það enn í dag, 690 megavött.

Allan þennan tíma hafa nokkrar minni virkjanir verið teknar í notkun (Forseti hringir.) án þess að ég nefni þær sérstaklega.