149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:52]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir vangaveltur hans og spurningu. Hann talar um hvort hætta sé á því að þessi auðlind, orkuauðlindin, renni okkur úr greipum. Ég tel að eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna í dag og í framtíðinni sé einmitt að halda auðlindunum í eigu þjóðarinnar þannig að þjóðin í heild sinni geti notið afraksturs auðlindanna.

Ég held að það sé mjög mikilvægt verkefni stjórnmálanna að leyfa ekki nein undanbrögð, ef má orða það þannig, eða gefa afslátt á því eða hleypa inn smám saman, eða í einhverjum bútum eða skömmtum, einhverjum tilslökunum sem geta leitt til þess með tíð og tíma — ég sé kannski ekki fram á að þetta gerist í einhverri skyndingu, en með tíð og tíma ef leyfðar eru tilslakanir sí og æ, eins og ég tel vera hér um að ræða með orkupakka þrjú. Og meira að segja talsmenn pakkans hafa þráfaldlega talað um að hann eigi ekki við hér. Hvers vegna er þá verið að innleiða hann í landið? Hvað hann mun hafa í för með sér er auðvitað ekki á mínu færi að spá, en það er ýmislegt sem hræðir. Maður hræðist ýmislegt í ákvæðum þessa pakka og ekki síður þeirra sem fylgja í kjölfarið og við höfum séð og fengið að líta aðeins í, að alþjóðlegt vald seilist alltaf lengra og lengra og litlar þjóðir eins og Ísland mega sín þá lítils.